lærdómsstílar

 

Hvernig finnst þér best að læra og tileinka þér nýja hluti? 


 

Áttu erfitt með að ná einbeitningu yfir lærdómnum eða einfaldlega muna það sem þú lærir?

Þá getur verið hjálplegt að nýta sér fleiri en einn lærdómsstíl. Sjálf notar undirrituð aðallega þrjá stíla en stundum er námskefnið svo erfitt að ég þarf að nota alla tiltæka lærdómsstíla til að skilja, muna og tileinka mér efnið. Stílarnir sem ég nota mest eru sjónrænt, stóra samhengið og munnlegt. Ég byrja venjulega á því að teikna upp kort, tímalínu eða finna myndir sem auka sjónræna úrvinnslu upplýsinganna og hjálpa mér að sjá stóra samhengið. Síðan nota ég munnlega úrvinnslu með því að lesa upphátt eða lesa í hljóði og gera munnlegan úrdrátt á nokkra blaðsíðna fresti. Mörgum þykir líka hjálplegt að taka sig upp á myndband og hlusta á sig nokkrum sinnum eða gera glósur. Þegar ég er búin að lesa og þylja upp efnið er annað alveg krúsíal fyrir minnið og það er að getað rætt innihald lestursins við einhvern. Ef ég hef ekki lærdómsfélaga hafa börnin mín eða eiginmaður verið mér mikil hjálp og spyrja mig oft spjörunum úr.

Til að komast að því hvaða stíla þú notar meðvitað eða ómeðvitað getur þú spurt þig eftirfarinna spurninga:

  1. Hvenær var síðast auðvelt fyrir mig að læra eitthvað?

  2. Hvað lærði ég og hvaða stíla (hér fyrir neðan) notaði ég?

  3. Hvað get ég gert í dag til þess að auðvelda mér að læra nýja hluti?

  4. Hverjar eru hindranirnar og hvernig yfirstíg ég þær?

 

notaðu eins marga stíla og þú vilt!

 

Sjónrænt

Sjá hlutina fyrir mér myndrænt. T.d hengja hlutina þá upp á vegg, nota mismunandi liti, teikna þá, dreyfa þeim út á borð, gera tímalínur osfv.

Verklega (Áþreifanlega)

Að geta snert, komið við þá. Gott dæmi um þetta er bók vs. rafbók, dagbók vs. google calander. Margir tengja ekki við leiðbeiningar um hvernig á að gera hluti og þurfa að fá sýnt og prófa sjálf til að skilja og muna.

Hlusta - heyra aðra segja hlutina, hlusta á fyrirlestur, sitja á skólabekk, sækja ráðstefnur, hlusta á bækur, útvarp.

Munnlega

Segja hlutina sjálf/sjálfur, tala / þylja hlutina upp, tala við sjálfan sig. Spjalla við aðra, fá endurgjöf, speglun eða staðfestingu á því að þú sért að fara með rétt mál eða til að dýpka skilning þinn á efninu. T.d þegar þú ert að læra fyrir próf í stærðfræði og smá óvissa vaknar yfir því hvernig þú átt að leysa dæmi - þá getur myndast stífla sem þú kemmst ekki yfir fyrr en þú færð aðstoð eða staðfestingu á því að þú sért að leysa dæmið rétt. Annað dæmi: Þú ræðir við vin afstöðu þína til tiltekis máls og við það að fá endurgjöf og spurningar dýpkar skilningur þinn á málinu, þú sækir þér jafnvel fleiri upplýsingar og færð tækifæri til að styrkja eða endurskoða afstöðu þína. Nánari uppýsingar gætu líka orðið til þess að þú vilt skipta um skoðun sé málefnið ekki í takti við gildismat þitt.

Hreyfifræðilega

Prófa hlutina sjálf/ur, finnst gott að vera á hreyfingu þegar þú lærir, hugsar, talar. Með því að hreyfa þig hrygg/mænu verður örvun við heila sem auðveldar þér að muna og taka eftir. Einnig getum hjálpað að hreyfa höfuðið til beggja hliða þar sem þau eykur örvunina við heila.

Tilfinningahlaðið eða kunnuglegt

Tengja tilfinningar við efnið sem þú ert að læra eða gera það kunnuglegt. Áhugi er tilfinning og þegar þú hefur áhuga þá lærir þú betur, nærð einbeitningu og mögulega manns betur. Fleiri sterkar tilfinningar hafa þessi áhrif og þær eru t.d ótti og spenna. Ert þú t.d vön/vanur að fresta því að læra fyrir próf þangað til daginn fyrir og verður þá orðin svo kvíðin að þú skyndilega nærð einbeitingu? ef svarið er já þá ertu að nota tilfinningu til að þú getir lært. Ég mæli ekki með því að nota kvíða því það eru svo margir neikvæðir fylgikvillar sem koma í kjölfarið en ef þú tengir við þessa aðferð er líklegt að þú getir reynt að framkalla jákvæðar tilfinningar í kringum hluti til að muna þá betur.

Stóra samhengið

Að hafa yfirsýn eða vita samhengi hlutana til að auka skilning. Fyrir mörgum geta nýjar upplýsingar virkað eins og ókláruð setning ef ekki er ljóst í hvaða samhengi upplýsingarnar eru. Þá getur verið gott að fá forsögu þessara gagna eða nákvæmari upplýsingar um tilgang þeirra svo þú hægt sé að gera nauðsynlegar tengingar og vita hvar þú átt að staðsetja/flokka þessar nýju upplýsingar. Gott dæmi um þetta eru samhengislaus fög eins og stærðfærði og efnafræði sem gera kröfur á að nemandi læri ákveðnar formúlur án samhengis. Þetta getur skapað mótspyrnu fyrir nemandann sem sér engann tilgang og hefur engan hvata til að læra formúluna. Ef formúlan er sett í samhengi hefur hún tilgang og nemandinn sér hag sinn í að skilja, muna og tileinka sér formúluna.


 
Previous
Previous

möskun / gríman

Next
Next

að ná einbeitingu og koma sér að verki