„ÞAÐ VAR Í RAUN SAMA HVERJU ÉG ÁORKAÐI ÉG NÁÐI EKKI AÐ NJÓTA ÞESS“

 

Krist­björg Kona Kristjáns­dótt­ir greind­ist með ADHD eft­ir fer­tugt. Skyndi­lega opnaðist nýr heim­ur og í kjöl­farið lærði hún ADHD markþjálf­un í New York í Banda­ríkj­un­um. Hún seg­ir að kon­ur með ADHD geri oft óraun­hæf­ar kröf­ur til sjálfra sín.

Smartland Mörtu Maríu | Frami | mbl | 22.5.2023 | 19:00


 

„Ég byrjaði að grúska í þessu í kjöl­farið af því að ég og börn­in mín feng­um ADHD grein­ingu fyr­ir nokkr­um árum. Þá hafði ég mjög tak­markaða vitn­eskju og þurfti ein­fald­lega að demba mér inn í fræðin til að sækja upp­lýs­ing­ar og yf­ir­sýn yfir þau úrræði sem voru í boði. Það var bæði yfirþyrm­andi og spenn­andi á sama tíma því við sáum fljótt að við vor­um með rétta grein­ingu en við vor­um samt svo ólík.

Sem dæmi er strák­ur­inn minn of­virk­ur, hvat­vís og mann­blend­in á meðan dótt­ir mín er með ráðandi víðhygli, mjög var­kár og feim­in. Þetta þýddi að ég sat oft langt fram á kvöld og las eða hlustaði á hljóðbæk­ur og hlaðvörp til að ná utan um ólík­ar birt­ing­ar­mynd­ir og hvað ég gæti gert til að styðja við þau.

Eft­ir því sem ég komst dýpra inn í ADHD fræðin og fór að skilja tauga­fjöl­breytni (e. neurodi­versity) og þá opnaðist fyr­ir mér nýr heim­ur sem ég heillaðist mikið af. Tauga­fjöl­breytni fylgja marg­ir styrk­leik­ar og ekki bara áskor­an­ir og erfiði. Fólk með ADHD er ein­stak­lega hug­mynda­ríkt, dríf­andi og fært um að sjá lausn­ir þegar aðrir sjá bara vanda­mál. Þess vegna er al­gengt að sjá fólk með ADHD inn­an skap­andi greina og í ný­sköp­un. Við erum líka fær um að ná ofur-ein­beit­ingu þegar við höf­um áhuga á hlut­um og erum ósigrandi þegar við höf­um trú á ein­hverju.

Við erum líka næmt fólk, skemmti­leg og stund­um orku­rík. Þetta gaf mér svo mikla von og ég var staðráðin í því að skilja fræðin enn bet­ur og aðferðirn­ar til þess að getað hjálpað börn­un­um mín­um að lifa til fulls með styrk­leik­un­um sín­um. ADHD markþjálf­un varð þannig rök­rétt skref í fram­hald­inu.

Mig hafði lengi langað að læra markþjálf­un og bjó að þeirri reynslu að hafa unnið sem ráðgjafi hjá Stíga­mót­um í nokk­ur ár. Ég hafði góða reynslu af því að starfa náið með fólki og verða því sam­ferða í sinni veg­ferð til betra lífs. Í fyrra út­skrifaðist ég svo sem sér­lærður ADHD markþjálfi frá ADD Coach Aca­demy í New York, sem er al­gjör­lega frá­bær skóli og hef­ur alþjóðlega hæfn­is­vott­un frá bæði ICF og PAAC sem eru alþjóðleg fag­fé­lög markþjálfa og ADHD markþjálfa,“ seg­ir Krist­björg sem greind­ist með ADHD á svipuðum tíma og börn­in henn­ar tvö. Hún var þó full efa­semda þegar hún sjálf greind­ist.

„Heilu kafl­arn­ir sem mér fannst bara verið að lýsa mér“

„Ég vissi mjög lítið um birt­ing­ar­mynd­ir ADHD og hvað það þýddi að hafa ADHD. Fyrstu dag­ana eft­ir að ég fékk grein­ing­una var ég full efa­semda.

Ég var meira að segja að spá í það að fara til ann­ars sál­fræðings til að fá þetta leiðrétt. Þegar ég sagði vin­kon­um mín­um frá þessu sló þögn á hóp­inn. Stór­fjöl­skyld­an mín tók frétt­un­um mjög vel og skellti sér sjálf í grein­ingu. Mamma sagði þegar ég hringdi í hana, já veistu ég held að ég sé líka með þetta!

Það sem hjálpaði mér senni­lega mest þarna í kjöl­far grein­ing­ar­inn­ar var að hlusta á bók Sari Sold­en, Women with Attenti­on Deficit Disor­der. Þar voru heilu kafl­arn­ir sem mér fannst bara verið að lýsa mér og lífi mínu. Það hjálpaði mér að taka grein­ing­una í sátt og kveikti upp í mér áhuga um að vita meira,“ seg­ir hún.

Krist­björg seg­ir að ógreint og ómeðhöndlað ADHD hafi mót­andi og djúp­stæð áhrif á sjálfs­mynd fólks og líðan þess.

„Það hef­ur áhrif á þær ákv­arðanir sem við tök­um og það gild­is­mat sem við för­um eft­ir. Þess vegna er það svo mik­il­vægt að við náum að greina stúlk­ur snemma og veit­um þeim viðeig­andi fræðslu og stuðning. Hóp­ur­inn sem oft gleym­ist eru kon­ur eins og ég sem fáum grein­ingu seint á æv­inni eft­ir að hafa stofnað fjöl­skyldu og valið okk­ur starfs­frama. Það er svo mik­il­vægt að fá upp­gjör og frelsi frá skömm­inni og grafa grím­una sem við höf­um senni­lega haldið uppi svo lengi að við mun­um ekki hverj­ar við erum.“

SNÝST UM AÐ HAFA NÆGA ÞEKK­INGU

Aðspurð að því hvað hafi breyst við það að fá ADHD grein­ingu seg­ir hún það vera mjög margt.

„Að fá ADHD grein­ingu hef­ur al­gjör­lega breytt öllu fyr­ir mig. Hún var upp­hafið af því að ég fór sjálfs­skoðun. Ég fór að skilja líðan mína bet­ur sem var for­send­an að því að ég náði að gera rétt­ar teng­ing­ar. Það er ekki allt í okk­ar hegðun og líðan tengt ADHD en það get­ur verið margt og þú nálg­ast ein­kenn­in á ann­an hátt þegar þú veist að þau eru ADHD tengd. Ég sýndi sjálfri mér mun meiri sjálfsmildi eft­ir grein­ingu. Ég átti auðveld­ara með að taka ein­kenni mín í sátt og gat losað mig við óþarfa skömm þegar ég skildi að þau voru tengd því hvernig heil­inn á mér var upp byggður.

Það var líka margt sem mig hefði aldrei grunað að væri tengt ADHD-inu og hélt bara að væri rök­rétt viðhorf, hegðun eða hugs­un. Gott dæmi um það er sjálfs­hark­an. Ég hef alltaf gert mikl­ar kröf­ur til mín og frek­ar óraun­hæf­ar vænt­ing­ar sem gerði það að verk­um að mér fannst ég aldrei nógu góð. Ég ætti að geta gert bet­ur og náði því sjald­an að njóta af­reka minna. Það var í raun sama hverju ég áorkaði ég náði ekki að njóta þess. Þegar ég fékk launa­hækk­un eða landaði góðri stöðu fann ég fyr­ir svik­ara heil­kenni (e. imposter syndrome) og upp­lifði mig ekki verðskulda launa­hækk­un­ina eða stöðuna. Þetta er mjög lýj­andi til­finn­ing og þó svo að ég geti séð og skilið rök­in á bak við viður­kenn­ing­ar fannst mér ég ekki verðskulda þær. Þú hef­ur á marg­an hátt vaðið fyr­ir neðan þig þegar þú hef­ur kort­lagt ein­kenni þín og ADHD heil­ann þinn.

Ef þú veist hverju þú get­ur átt von á og þá veistu hvernig þú átt að bregðast við.

Að sníða ákveðna viðbragðsáætl­un var ná­kvæm­lega það sem ég þurfti til að tryggja vellíðan og hafna sjálfs­gagn­rýni og því niðurrifi sem svik­ara heil­kennið olli. Þetta snýst um að hafa næga þekk­ingu, inn­sýn og réttu verk­fær­in til að mæta eig­in þörf­um, hægja á og fækka sjálf­krafa viðbrögðum. Þetta ger­ist auðvitað ekki á einni nóttu og bygg­ir á reynslu sem safn­ast sam­an með tím­an­um. Að skiljaADHD heil­ann sinn og átta sig á því hvað virk­ar og hvað virk­ar ekki breyt­ir öllu og það er svo sann­ar­lega fyr­ir­hafn­ar­inn­ar virði. Ég fékk líka ómet­an­lega hjálp frá koll­ega mín­um, Sigrúnu Jóns­dótt­ir ADHD markþjálfa. Það er fátt betra en að hitta aðra meðADHD og finna að það eru fleiri að ganga í gegn­um það sama og þú. Sigrún var líka hvat­inn að því að ég sér­hæfði mig sem ADHD markþjálfi hjá ADDCA. En hún hafði sjálf lokið námi þar fimm árum áður,“ seg­ir Krist­björg.

„Við Sigrún eig­um það sam­eig­in­legt að hafa verið komn­ar yfir fer­tugt þegar við feng­um okk­ar grein­ingu og sú staðreynd hef­ur alltaf verið vin­sælt umræðuefni okk­ar á milli. Það að hafa verið með ógreint og ómeðhöndlað ADHD í öll þessi ár, í gegn­um okk­ar mennt­un, sam­bönd, hjóna­band og síðan móður­hlut­verkið hafði djúp­stæð áhrif á okk­ur. Við fór­um báðar á kaf í fræðin í kjöl­farið sem var mjög tíma­frek­ur prósess. Þess vegna er þetta nám­skeið okk­ur svo mik­il­vægt og er okk­ur mikið hjart­ans mál.

Vinna okk­ar inn­an ADHD markþjálf­un­ar er unn­in af ástríðu og ein­skær­um vilja til þess að hjálpa fólk­inu okk­ar hvort held­ur að vinna með ein­stak­ling­um eða vera með nám­skeið. Nám­skeiðið ADHD á kvenna máli er ákveðinn stuðnings­hóp­ur þar sem kon­ur fá tæki­færi til að deila reynslu sinni, hlusta á sög­ur annarra, fræðast og öðlast dýpri skiln­ing á sjálfri sér. Þetta er nám­skeiðið sem við vild­um að hefði verið í boði þegar við feng­um okk­ar grein­ingu.

Við byggj­um þetta upp sem veg­ferð sem leiðir kon­ur í átt að sátt­inni. Sátt við það að vera með ADHD og að meðtaka hverj­ar við erum í raun og veru. Við erum ekki að hjálpa kon­um að losna við ein­kenni sín eða verða venju­leg­ar. Hjá okk­ur lær­ir þú að við erum flott­ar, frá­bær­ar og jafn­vel stór­kost­leg­ar vegna þess að við erum - með ADHD.“

Hvers vegna held­ur þú að kon­ur séu að grein­ast svona marg­ar með ADHD á full­orðins­aldri núna?

„Fram­far­ir. Hér á árum áður var talið að ADHD myndi vaxa af okk­ur með aldr­in­um. Því var líka haldið fram að fleiri strák­ar væru með ADHD en stelp­ur. Þá var kannski verið að greina þrjá stráka á móti einni stelpu. Svo erum við háð því að fá upp­lýs­ing­ar úr rann­sókn­um og þar hef­ur hallað veru­lega á kon­ur. Enn þann dag í dag er mik­ill skort­ur á rann­sókn­um á kon­um með ADHD og ekki síst með til­liti til horm­óna og ald­urs.“

Hvernig hafa horm­ón áhrif á ADHD?

„Horm­ón kvenna sveifl­ast til dæm­is í takt við tíðahring­inn og svo er hlut­fall þeirra mjög breyti­legt út æv­ina. Þegar kon­ur hafa blæðing­ar eða fara á breyt­inga­skeiðið fell­ur estrógen og prógesterón magnið í lík­am­an­um. Það hef­ur áhrif á lang­lífi og fram­leiðslu lík­am­ans á dópa­míni og ser­etón­íni. Við þurf­um dópa­mín til þess að koma hlut­um í verk og serótón­ín til að líða vel. Þegar stúlk­ur verða kynþroska verður fyrsta al­vöru breyt­ing­in á stýri­færn­inni en það er ein­mitt þar sem ADHD áskor­an­ir okk­ar eiga upp­tök sín. Ef það er ekki skort­ur á estrogeni í lík­am­an­um dreg­ur veru­lega úr ADHD ein­kenn­um stúlkna við kynþroska ald­ur. Marg­ar byrja að standa sig bet­ur í skóla, styrkja fé­lags­leg tengsl sín og skilja heim­inn bet­ur því þær eiga auðveld­ara með ein­beit­ingu. En því miður er estrogen magnið aldrei stöðugt og breyt­ist reglu­lega. Sem dæmi eykst magn estrógens þegar þú hef­ur egg­los en fell­ur svo um leið við blæðing­ar.

Estrogen held­ur svo áfram að minnka jafnt og þétt fram að breyt­ing­ar­skeiðinu, sem er ⅓ af ævi okk­ar. Marg­ar kon­ur fá ekki lam­andi eða hamlandi ein­kenni ADHD fyrr en á breyt­ing­ar­skeiðinu. Það get­ur verið mikið áfall.“

Þegar Krist­björg er spurð að því hvort hún þekki kon­ur með ADHD lang­ar leiðir seg­ir hún svo ekki vera.

„Ég get ekki sagt það. Það hef­ur al­veg komið fyr­ir að ég taki eft­ir ákveðinni hegðun eða ein­kenn­um hjá nán­um ætt­ingj­um og vin­um en ég reyni að halda því fyr­ir sjálfa mig. Ég læt sál­fræðinga og geðlækna um að gera slíkt mat.“

Hverj­ar eru helstu áskor­an­irn­ar sem kon­ur með ADHD standa frammi fyr­ir?

„Skömm­in um að standa ekki und­ir eig­in vænt­ing­um er senni­lega einn erfiðasti fylgi­kvilli þess að vera með ADHD. Að ógleymdri allri ut­anaðkom­andi pressu. Það er svo rosa­lega mikið álag á kon­um í dag og óþarfa mik­il áhersla á það að vera með allt á hreinu í líf­inu. Eiga fal­legt, vel skipu­lagt og hreint heim­ili, klár börn, vera smart og brillera í vinn­unni þetta er auðvitað að keyra okk­ur í kaf. Það er al­veg sama hvort kon­ur eru virk­ar eða óvirk­ar þeim finnst erfitt að leyfa sér slaka á, án þess að hafa sam­visku­bit yfir því.

Ég sótti alþjóðlegt nám­skeið um dag­inn þar sem þetta var mikið rætt og þessi mikla sam­fé­lags­lega krafa sem gerð er á kon­ur. Þess­ar kröf­ur eru auðvitað galn­ar og við þurf­um ein­fald­lega að hætta að gang­ast við þess­um kröf­um,“ seg­ir hún og hlær.

„Nei í al­vöru, það er 2023 og við erum ennþá að dæma kon­ur fyr­ir að gera hluti sem körl­um er vel­komið að gera. Kon­ur sem hafa at­hygl­is­brest með of­virkni upp­lifa til dæm­is mun meiri for­dóma í sinn garð því þær eiga það til að tala meira og hærra en aðrar kon­ur og taka meira pláss. Þær geta líka verið hvat­vís­ari en aðrar kon­ur og sýnt dug, dugnað og verið óhrædd­ar í erfiðum aðstæðum. Allt eig­in­leik­ar sem eru sagðir mjög eft­ir­sókn­ar­verðir hjá körl­um, en ekki hjá kon­um. Þetta er fé­lags­legt mein og hef­ur með kynja­hlut­verk­in að gera. Hvað sam­fé­lagið skil­grein­ir sem æski­lega hegðun hverju sinni. Svo var líka talað um að kon­ur með ADHD geti átt erfiðara með að vera í sam­bönd­um sér­stak­lega á meðan þær eru með ógreint og ómeðhöndlað ADHD. Ef vinnslum­innið er slakt og til­finn­inga­stjórn­un erfið þá eru þær lík­legri til að mis­skilja maka sinn og aðstæður og lesa vit­laust í þær. Svo er líka margt sem bend­ir til þess að kon­ur þjá­ist frek­ar af vefjagigt séu með mígreni og hafi stoðkerf­is­vanda­mál af ein­hverju tagi en karl­ar með ADHD. Það er eig­in­lega sama hvort kon­ur eru of­virk­ar, van­virk­ar eða allt þar á milli. Aðal áskor­un­in er sjálfsmildi. Við þurf­um að læra að sýna okk­ur sjálf­um mildi.“

Hvað er hægt að gera til þess að láta sér líða bet­ur annað en taka lyf?

„Lyf­in hjálpa mörg­um og rann­sókn­ir sýna að notk­un þeirra leng­ir líf okk­ar og kem­ur í veg fyr­ir slys og dreg­ur úr fíkni­hegðun svo eitt­hvað sé nefnt. Lyf­in eru oft tek­in sam­ferða öðru úrræði s.s. með hug­rænni at­ferl­is­meðferð (HAM), stuðnings­sam­töl­um eða ADHD markþjálf­un. Ég tók sjálf lyf í nokk­ur ár en þurfti svo að hætta á þeim vegna þess að þau voru æðaþrengj­andi. Ég sakna þeirra mjög mikið en ég næ að halda mér á góðu róli með réttu mataræði, hreyf­ingu, bæti­efn­um og með því að gera mikið af því sem hækk­ar dópa­mínið mitt. Ég veit upp á hár hvað ég get gert til þess að hressa mig við, auka virkni og ein­beit­ingu. Þetta er auðvitað mjög ein­stak­lings­bundið en á mín­um lista eru hlut­ir eins og að hitta reglu­lega góða vini, vera úti í nátt­úr­unni, hlusta á góða tónlist, dansa og fá góðan svefn. Allt hlut­ir sem eru ókeyp­is og virka fyr­ir mjög marga. Svo geta hlut­ir hætt að virka og þá þurf­um við að end­ur­skil­greina þá. Við sem erum með ADHD þurf­um sí­fellt að finna nýja hluti sem styðja við okk­ur því ef við miss­um fljótt áhuga á þeim og þá hætta þeir að virka,“ seg­ir hún og bæt­ir við:

„Þegar þú ert með tauga­teng­ing­ar í heil­an­um sem eru knún­ar áfram að áhuga, nýj­ung­um og ásetn­ingi þarftu oft að end­ur­skil­greina hlut­ina svo þeir geti haldið áfram að gera þér gott. Svo þarf fólk ein­fald­lega að prófa sig áfram. Stund­um þarf rútín­ur eða kerfi til að styðja við okk­ur og þá þarf að gæta þess að setja sér ekki of há­leit mark­miðið eða búa okk­ur of stranga rútínu. Þetta vinn­um við ADHD markþjálf­ar mikið með því það er lítið mál að kaupa sér skipu­lags­bæk­ur og öpp en það ger­ir ekk­ert fyr­ir okk­ur ef við för­um ekki eft­ir því. Við þurf­um öll að finna hvað virk­ar fyr­ir okk­ur.

Auk­in þekk­ing á eig­in ADHD er lyk­ill­inn að betra lífi og það sem breytti öllu fyr­ir mig per­sónu­lega.

Ég byrjaði á því að lesa allt sem ég fann og mæli ein­dregið með því að fólk sæki sér þekk­ingu. Það er svo mikið af góðu efni á net­inu, á bóka­safn­inu og í hlaðvörp­um sem er ókeyp­is eða fá­an­legt fyr­ir lít­inn pen­ing. Svo er rosa­lega nær­andi að til­heyra hópi ADHD kvenna sem eru að glíma við svipaðar áskor­an­ir og þú. Ég mæli að sjálf­sögðu með nám­skeiðinu okk­ar Sigrún­ar, ADHD á kvenna­máli. Þar fá kon­ur tæki­færi til þess að fræðast, kynn­ast sjálfri sér og vera í frá­bær­um fé­lags­skap ADHD systra sinna. Það ger­ist ekki betra!“


Smartland Mörtu Maríu
| Frami | mbl | 22.5.2023 | 19:00

 

Smartland viðtal

Previous
Previous

Efficacy of ADHD Coaching for Adults With ADHD

Next
Next

Að fresta hlutum